Leita í fréttum mbl.is

Aðalfundur Græna netsins 2010

Aðalfundur Græna netsins verður haldinn á Sólon í Bankastrætinu laugardaginn 12. júní og hefst kl. 11. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Stefnt er að því að fulltrúar nýs meirihluta í Reykjavík kynni stefnu sína í umhverfis- og náttúruverndarmálum ap loknum aðalfundarstörfum, uppúr kl. 11.30.

Borgarskipulag eða smákóngaveldi?

Græna netið athugar skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu með Hjálmari Sveinssyni. Stjórnar fólkið skipulaginu?

Hjálmar Sveinsson útvarpsmaður og frambjóðandi er gestur Græna netsins á fundi um borgarskipulag á laugardaginn, 6. mars, á Glætunni, Laugavegi 19. Fundurinn hefst klukkan 11 fyrir hádegi.

Hjálmar hefur getið sér gott orð fyrir ferskar hugmyndir og fróðlega umfjöllun um skipulags- og umhverfismál í Reykjavík og nágrenni. Hann er nú í fjórða sæti á S-listanum í Reykjavík og í aðdraganda prófkjörsins um daginn gagnrýndi hann meðal annars smákóngaveldi á höfuðborgarsvæðinu, sem hefði komið í veg fyrir skynsamlegar skipulagsákvarðanir í þágu íbúanna.
Búast má við líflegum umræðum um skipulag í borginni og skipulag í skipulagsmálum á fundi Græna netsins með Hjálmari.

Allir velkomnir á Glætuna, laugardag frá kl. 11.

Stjórn Græna netsins


Skorað á stjórnvöld að gera grein fyrir orkuöflun

Áskorun orkumálSkorað er á ríkisstjórnina, einkum forsætisráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, að taka saman yfirlit og gera rækilega grein fyrir því hvaða háhitasvæði og vatnsföll verður nauðsynlegt að virkja til þess að afla orku fyrir 360 þúsund tonna álverksmiðju í Helguvík.

Orkuþörf þessa fyrirhugaða álvers er um 650 MW eða sem nemur nærri einni Kárahnjúkavirkjun. Orkuvinnsla í slíku umfangi getur ekki komið til án þess að henni fylgi ráðstöfun fjölmargra dýrmætra hverasvæða og vatnsfalla sem mörg hver ættu heldur að njóta verndar.

Með vísan í fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að hún muni „beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum” heitum við á ráðherrana að upplýsa þjóðina um þessi efni.

Græna Netið
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Sól í Straumi
Sól á Suðurlandi
Sól á Suðurnesjum


Hvað verður úr Rammaáætluninni?

Svanfríður Jónasdóttir og Þóra Ellen Þórhallsdóttir segja frá væntanlegri Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða á fundi Græna netsins á Sólon kl. 11 á laugardag.

Rammaáætlun „um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði“ er væntanleg strax eftir áramót og sætir tíðindum í langvinnum deilum um virkjanir og náttúruvernd. Grunnhugsunin í þessum áfanga var að sameinast um tiltekin verndarsvæði en gefa jafnframt almennt leyfi til framkvæmda á öðrum náttúrusvæðum. Enn önnur svæði verða svo áfram í biðstöðu, en þá ekki hreyfð á meðan. Þær tillögur sem skapast um þetta fara frá vinnuhópnum til ríkisstjórnarinnar og á alþingi að lokum að fjalla um þær og festa meðferð þeirra í lög, sem ekki var um fyrri tilraun til slíkrar rammaáætlunar.

Á fundi Græna netsins á laugardag segir Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar og bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, frá vinnunni við þennan áfanga Rammaáætlunar og lýsir því sem nú liggur fyrir, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, formaður faghóps um náttúrufar og minjar og náttúrufræðiprófessor, segir frá vinnu og áföngum í því starfi.

Fundurinn hefst klukkan 11 á Sólon í Bankastræti, Reykjavík. Fundarstjóri verður Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi.Í Rammaáætluninni einsog hún er nú skipulögð felst helsta framlag Samfylkingarinnar og síðustu tveggja ríkisstjórna til sátta um landnýtingu á náttúrusvæðum, og „Rammaáætlun um náttúrusvæði“ var eitt af kjarnaatriðum stefnunnar um Fagra Ísland fyrir kosningarnar 2007.Hér er tækifæri til að fræðast, ræða málin og hafa áhrif.

Mætum öll á Sólon laugardag frá kl. 11–13 látið áhugamenn um náttúruvernd og landnýtingu í kringum ykkur endilega vita af fundinum á laugardaginn!

Allir velkomnir!

Stjórnin

-- Græna netið, félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðinagraenanetid@gmail.com
www.graenanetid.blog.is


Græna netið kærir ákvörðun um Suðvesturlínur

Græna netið kærði á föstudag til umhverfisráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. október 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og tengdra framkvæmda.

HelguvíkKæra Græna netsins byggist á því að ávinningur af sameiginlegu mati línulagnar, áformaðs álversrekstrar við Helguvík, virkjana o.fl. framkvæmda náist ekki með umhverfismati hverrar og einnar af þessum framkvæmdum. Græna netið telur að réttur almennings til fullrar upplýsingar og áhrifa vegi þyngra en rök Skipulagsstofnunar um óhagræði framkvæmenda af sameiginlegu mati og vísar til laga og lögskýringargagna í því sambandi.

Aðeins með heildstæðu mati á þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru til að mæta orkuþörf vegna rekstrar álversins við Helguvík og til annarra nota verða áhrif þeirra að fullu leidd í ljós, svo sem sjónræn áhrif vegna línulagna og bygginga, rask vegna veglagningar og efnistöku í sambandi við framkvæmdirnar, áhrif á loftgæði og hljóðvist vegna umferðar og framleiðslu.

Græna netið vekur sérstaka athygli á því að hvergi liggur fyrir hvaða orkuöflunarkosti á að nýta fyrir fullbyggt 360 þúsund tonna álver við Helguvík með 630 MW orkuþörf. Meðan ekki fæst skorið úr því og öðrum álitamálum eru ekki forsendur til að meta legu og umfang Suðvesturlínu. Þegar horft er til legu þeirra virkjunarkosta sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi er ljóst að núverandi tillögur um legu Suðvesturlínu kalla á talsvert lengri tengingar en ef línustæðið yrði lagt suður Þrengslin, framhjá Þorlákshöfn og meðfram fyrirhuguðum Suðurstrandarvegi, en ekki yfir vatnsból og vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar og grannbyggða.

Græna netið er „félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina“ og eru í því bæði félagar í Samfylkingunni og umhverfissinnar utan flokka. Katrín Theodórsdóttir lögræðingur og stjórnarmaður í Græna netinu skrifar undir kæruskjalið fyrir hönd félagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Græna netið

Græna netið

- félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
Til að ganga í Græna netið og/eða skrá sig á póstlista sendið póst á
graenanetid@gmail.com
Vinsamlegast smellið á fyrirsögn til að fá upplýsingar um félagið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband