15.4.2011 | 01:32
Orkulindir og ákvörðunarvald - Hver er framtíðin?
Mikil tilfærsla á valdi er fyrirsjáanleg í tengslum við ákvarðanir um nýtingu orkulinda Íslands á næstunni. Hverjir ráðstafa auðlindinni? Hver er aðkoma almennings? Og í hverju felast þær breytingar sem nú eru í vændum? - eru spurningar sem Kristín Haraldsdóttir sérfræðingur við lagadeild HR og forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar mun leitast við að svara á fundi Græna netsins á SÓLON laugardaginn 16. apríl kl. 11.00-12.30.
Að mörgu þarf að gæta þegar kemur að því að ákveða hvernig ráðstafa skuli orkulindum þjóðarinnar. Langtímasjónarmið eins og náttúruvernd, orkuöryggi og jafnrétti kynslóðanna hafa um nokkurt skeið togast á við skammtímahagsmuni og pólitíska óráðdeild. Í dag eru teikn á lofti um að lagabreytinga sé að vænta og mun ræðumaður skýra fyrir áheyrendum í hverju þær felast.
Látið berast - Allir velkomnir!
Stjórnin
Græna netið, félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
graenanetid@gmail.com
www.graenanetid.blog.is
25.2.2011 | 22:20
Er Samfylkingin græn?
Á morgun laugardaginn 26. febrúar kl. 11-13 stendur Græna netið, félag jafnaðarmanna um náttúruna, umhverfið og framtíðina, fyrir fundi á Hressó um Samfylkinguna og grænu málin.
Frummælendur verða þau Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv umhverfisráðherra og formaður þingflokks Samfylkingarinnar og Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar og óþreytandi baráttumaður fyrir náttúruvernd.
Fundarstjóri verður Dofri Hermannsson, formaður Græna netsins og fv framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar.
Spurt verður: Er Samfylkingin græn? Hvert er orðspor hennar í umhverfismálum? Hvað hefur hún gert vel og hvar hefur hún brugðist? Hvað réð ákvörðun þingflokksins um að styðja Kárahnjúkavirkjun? Samræmdist það stefnu flokksins? Er stefna flokksins ein og söm um allt land eða afstæð eftir því hvar á landinu hún er til umræðu? Hvaða hagsmunir ráða för? Kjördæmapot? Endurkjör? Eru flokkar öflugt verkfæri til að koma stefnu kjósenda í framkvæmd eða ef til vill einhvers konar ReMax lógó fyrir einyrkja í pólitík?
Þessar spurningar og ýmsar aðrar verða til umræðu á opinskáum og hressilegum fundi Græna netsins kl 11-13 á morgun laugardaginn á Kaffi Hressó.
Allir velkomnir.
Sjá Facebook viðburð hér http://www.facebook.com/event.php?eid=202113206465548
5.11.2010 | 17:59
Helguvíkurálver - björgunarhringur eða myllusteinn?
Fundur Græna netsins á Sólon Íslandus kl. 11-13 á morgun laugardaginn 6. nóvember. Framsögumenn: Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður og Dofri Hermannsson, formaður Græna netsins.
- Er Helguvíkurálverið það sem bjarga mun þjóðinni upp úr kreppunni og eyða atvinnuleysi á Suðurnesjum?
- Hvað skapar álver mörg störf á MW?
- Er næg orka til?
- Hvaða náttúrusvæðum mun þurfa að fórna?
- Þola orkufyrirtækin þá lántöku sem nauðsynleg er til að virkja?
- Ef ekki, á hverjum lendir tjónið?
- Eru aðrir möguleikar í stöðunni?
- Hvað skapa þeir möguleikar mörg störf á MW?
- Ef við ætlum að nýta jarðvarmaorku til atvinnuuppbyggingar, hvernig ættum við að gera það og hvað ættum við að varast?
Þessar spurningar og margar aðrar á Sólon Íslandus á morgun.
Allir velkomnir.
11.10.2010 | 16:19
Hafnarframkvæmdir í Helguvík - Yfirlýsing frá Græna netinu
Yfirlýsing frá stjórn Græna netsins, félags jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina.
Stjórn Græna netsins lýsir furðu á vilja 6 þingmanna Samfylkingarinnar til að setja 700 milljónir af almannafé í að byggja upp einkahöfn fyrir 360.000 tonna álver í Helguvík. Ljóst er sú fórn mun engu breyta um eftirfarandi staðreyndir:
Orku vantar fyrir meira en helminginn af fyrirhuguðu álveri
Orkufyrirtækin vantar fjármagn til virkjunar á þeirri orku sem til er
Stór hluti þeirrar orku sem fyrirhugað er að virkja er bundin skipulagsvaldi sveitarfélaga sem vilja heldur að orkan sé nýtt til atvinnusköpunar í viðkomandi sveitarfélagi
Ekki er sátt um legu SV línu t.a.m. hafa fulltrúar Ölfuss lýst því yfir að línan verði ekki lögð um lendur þess nema að hluti af orku Hengilsins fari til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu.
Fengist fjármagn í virkjun þeirrar orku sem til er yrði það á mun hærri vöxtum en áformað var og því ljóst að orkufyrirtækin þurfa mun hærra verð fyrir orkuna en gert var ráð fyrir í upphafi
Hærra orkuverð setur fjármögnun Norðuráls á álverinu í Helguvík í enn frekara uppnám sem þó var ærin fyrir
Stjórn Græna netsins skorar á sexmenningana að rifja upp samþykktir landsfundar Samfylkingarinnar frá 2009 t.d. kaflann Efnahagsleg endurreisn http://www.samfylkingin.is/LinkClick.aspx?fileticket=2cUtg1a%2bLBg%3d&tabid=166
þar sem m.a. segir:
Endurreisnin verður að miðast við græn grunngildi sem fela í sér sjálfbæra nýtingu auðlinda til lands og sjávar og traustan grunn fyrir stöðugleika og varanlegar lausnir. Tími töfralausna er liðinn.
Einnig gæti kaflinn Atvinna fyrir alla verið þeim holl upprifjun en hvergi er þar að finna orð um að nota skattfé almennings í að niðurgreiða vanhugsaðar töfralausnir. http://www.samfylkingin.is/LinkClick.aspx?fileticket=Ixu7jJbiGN4%3d&tabid=166
Þess má geta að þær 700 milljónir sem umræddir þingmenn Samfylkingarinnar vilja taka af almenningi til að niðurgreiða einkahöfn fyrir erlent álfyrirtæki er um það bil sama upphæð og Tækniþróunarsjóður fær á ári til að styðja við bakið á nýjum sprotafyrirtækjum.
Á síðasta ári varð Tækniþróunarsjóður að neita 80% umsókna um stuðning vegna skorts á fjármunum. Efling sjóðsins hefur lengi verið baráttumál Samfylkingarinnar enda vandfundin betri leið til að efla nýsköpun í atvinnulífinu, skapa fjölda nýrra starfa, auka verðmætasköpun og útflutning.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er flókið og alvarlegt mál sem hvorki á að hafa í flimtingum né gera sér pólítskan mat úr með tækifærismennsku. Þegar styðja á við bakið á atvinnuuppbyggingu með almannafé verður að gera kröfu um að verkefni séu arðbær, ferlið við mat á þeim sé gegnsætt og að allir hafi sömu möguleika á að njóta stuðnings. Efling Tækniþróunarsjóðs er dæmi um slíkar aðgerðir en vel má hugsa sér svæðisbundna útfærslu á slíkum aðgerðum.
700 milljónir af almannafé til niðurgreiðslu á einkahöfn í Helguvík er hins vegar augljóst dæmi um kjördæmapot, fyrirgreiðslupólitík og pólitísk hrossakaup.
27.8.2010 | 18:17
Virkjunaráform í Skaftárhreppi - Haustferð 11.-12. september
Náttúruverndarfólk hefur nú ákveðið að blása til vettvangsferðar um mosavaxnar hraunbreiður og árbakka iðandi vatnsfalla í Skaftárhreppi. Það eru Græna netið, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands sem standa að ferð 11.-12. september um fyrirhuguð virkjunarsvæði á vatnasviði Skaftár og þá sér í lagi virkjanir kenndar við Búland, Hólmsá og jafnvel Skál. Leiðsögumaður í ferðinni verður Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.
Á laugardeginum 11. september verður horft til áhrifa af Kötluhlaupum m.a. við Hjörleifshöfða og farið yfir fyrirhugað virkjunarsvæði í Hólmsá. Á sunnudag 12. september verða skoðuð virkjunaráform við Búland og Skál. Áætluð mannvirki Búlandsvirkjunar teygja sig upp að Hólaskjóli þar sem við snæðum kvöldverð og gistum á laugardagskvöld. Þess má geta að þennan sama dag verður réttað í Skaftárrétt.
Ferðin er öllum opin og sendist skráning til: reynirsigur@gmail.com
Gjald fyrir rútu, gistingu og kvöldverð er kr. 16.900 og til að tryggja sér sæti þarf að greiða gjaldið inn á reikning Græna netsins fyrir 6. september.
Bankaupplýsingar og kennitala: 303-26-41110; 411107-1240
Nánari upplýsingar hjá Reyni S í síma 894 0250 (til 5. sept) og Sigrúnu P í síma 866 9376 (eftir 5. sept.)Stjórnin
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- 15.10.2012 Náttúruvernd og mannréttindi - Hádegisfundur á Sólon 16. október
- 7.6.2012 Náttúruperlan Mývatn og jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi - fer...
- 21.5.2012 Virkjun gufuafls og náttúra Mývatns - Vettvangsferð 8.-10. júní
- 12.1.2012 Hversu verðmætt er myrkrið? Fundur um stjörnuhimin og ljósmengun
- 30.6.2011 Græna netið heldur aðalfund 7. júlí
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Spurt er
Eldri færslur
- Október 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Janúar 2012
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008