Leita í fréttum mbl.is

Bíðum niðurstöðu rammaáætlunar - yfirlýsing Samfylkingarinnar

Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt í lok flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar sl. sunnudag: „Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Hótel Sögu 30. mars 2008 hvetur ríkisstjórnina til að vinna að atvinnuuppbyggingu sem byggist á þekkingu, hátækni og virðingu við sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar. Fundurinn leggur áherslu á að meðan beðið er niðurstöðu rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði ekki farið inn á óröskuð svæði og varar eindregið við því að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hefjist áður en gengið hefur verið frá orkuöflun, línulögnum, losunarheimildum o.fl.

Flokksstjórnarfundurinn telur að við ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir í atvinnumálum með tilstuðlan og atbeina stjórnvalda og almannafyrirtækja verði að taka mið af nútímalegum atvinnuháttum, byggðasjónarmiðum og umhverfisþáttum, þar á meðal skuldbindingum Íslendinga í loftslagsmálum og fyrirheitum um vernd ósnortinna náttúrusvæða.“

Ályktunartillöguna báru fram þau Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ, og Mörður Árnason, formaður Græna netsins, fyrir hönd samtaka sinna og var hún samþykkt með breytingartillögu frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í umræðum um tillöguna var sérstaklega minnst á boðaðar Helguvíkurframkvæmdir og virkjanir og línulagnir sem þeim tengjast.

Græna netið lýsir yfir stuðningi við umhverfisráðherra vegna Helguvíkur

HelguvíkStjórn Græna netsins, samtaka umhverfisverndarsinna í tengslum við Samfylkinguna lýsir fullum stuðningi við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra og mótmælir samþykktum um að leyfa framkvæmdir í Helguvík í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi í hádeginu í dag, 13. mars 2008:

„Stjórn Græna netsins tekur undir ummæli Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og lýsir fullum stuðningi við ráðherrann í þessu máli. Stjórn Græna netsins mótmælir harðlega ákvörðunum tveggja sveitarstjórna um að leyfa framkvæmdir í Helguvík. Ekki hefur verið tryggð orka til álversins og er meira að segja alls óljóst um orkuöflun til fyrri eða fyrsta áfanga þess. Ýmsar þeirra virkjana sem til þess voru ætlaðar eru enn á teikniborðinu, aðrar ekki komnar gegnum umhverfismat og ekki líklegt að af þeim verði, t.d. virkjuninni á Ölkelduhálsi eða Bitru. Mikil óvissa er um flutningslínur að Helguvík og álfyrirtækið hefur ekki aflað sér losunarkvóta. Þá hefur umhverfisráðherra hefur enn ekki úrskurðað um kæru Landverndar um umhverfismat álversframkvæmdanna í heild.

Við þessar aðstæður eru yfirlýsingar forráðamannanna og samþykktirnar í sveitarstjórnum Reykjanesbæjar og Garðs fyrst og fremst áróðursbragð til að afla málinu fylgis í miðjum tíðindum um kólnun í efnahagslífi og alþjóðlega fjármálaerfiðleika. Staðreyndin er sú að álver í Helguvík hefur neikvæð áhrif gagnvart þeim úrlausnarefnum sem nú blasa við í efnahagsmálum og álversframkvæmdir þar mundu síst draga úr vanda byggðanna kringum landið. Framkvæmdir munu án vafa seinka vaxtalækkunarferli Seðlabankans og lækkun verðbólgu með gríðarlegum kostnaði fyrir heimilin í landinu.
Álver eru ekki svarið í atvinnuuppbyggingu næstu áratuga en sumar þeirra virkjanaframkvæmda sem framkvæmdirnar byggjast á eru hinsvegar hrein umhverfisslys.

Stjórnvöld eiga að hindra álversáform í Helguvík og beita áhrifum sínum til þess að sú orka sem í boði er á svæðinu sé nýtt til nútímalegri og umhverfisvænni iðnaðar.“


Olíuhreinsistöð – nútímakukl á Vestfjörðum?

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði, Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi og  Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar eru málshefjendur á spjallfundi Græna netsins laugardagsmorguninn 1. mars um Olíuhreinsistöð – nútímakukl á Vestfjörðum?

 

Eftir fundi fyrir vestan um síðustu helgi og tillögur Framtíðarlandsins um atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum eru áformin um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum í brennidepli. Dofri hefur skrifað um áformin hvassar greinar sem hafa vakið ýmis viðbrögð vestra, Halldór er svæðinu öllu kunnugur sem bæjarstjóri, er höfundur hugmyndanna um „stóriðjulausa Vestfirði“ en í seinni tíð hallur undir stöðvaráformin, og Bergur er nýkominn úr leiðangri til Noregs þar sem hann og Ómar Ragnarsson skoðuðu olíuhreinsistöðvar og nærleiggjka ndi byggðir.

 

Það má búast við góðum erindum og  fjörugum umræðum á fundi Græna netsins á laugardaginn – hann verður haldinn á veitingahúsinu Sólon í Bankastrætinu, efri hæð, og hefst kl. 11 árdegis. Allir velkomnir.

  

Enginn er verri þótt hann vökni

Magnús segir frá á ReykjafjalliGóð mæting var í vettvangsferð Græna netsins á Varmársvæðið í Mosfellsbæ á laugardag þrátt fyrir úrhellisrigningu. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um jarðhitasvæðið  í Reykjahverfi, skoða náttúruperlur á bökkum Varmár og líta yfir framkvæmdasvæðið í Helgafellslandi. Magnús Guðmundsson sagnfræðingur leiddi hópinn sem hóf för í  Reykjahverfi þar sem Guðmundur Jónsson sagði sögu kalkúnaræktar á Reykjabúinu. Eftir skemmtilega göngu upp í hlíðar Reykjafjalls undir leiðsögn Magnúsar var haldið til Hönnu Bjartmars en þar biðu hópsins ylur og indælar veitingar. Jónas Sigurðsson bæjarfulltrúi sagði þar gestum frá stöðu skipulagsmála í Mosfellsbæ áður en haldið var af stað að Reykjalundi þar sem Magnús skýrði frá sögu staðarins. Þaðan var haldið að fögru gljúfri Skammadalslækjar og niður að Álafossi.
Guðmundur á Reykjum segir frá ReykjabúinuÍ Álafosskvos beið Palli hnífasmiður eftir göngugörpum með ilmandi fiskisúpu. Undir borðum sagði Katrín Theódórsdóttir lögmaður frá Varmárdeilunni og fulltrúar Varmársamtakanna frá starfi samtakanna og markmiðum. Dagskránni lauk síðan með stuttri heimildamynd um lífið á Álafossi frá 1896-1970 sem Hildur Margrétardóttir og fleiri íbúar á svæðinu eru að vinna að.
Græna netið átti frumkvæði af þessari vel heppnuðu ferð í Mosfellsbæ sem þeirra fólk á svæðinu skipulagði og er vonandi að starf félagsins haldi áfram með sama dampi og hér er lýst.

Í gróðurhúsi Hönnu Bjartmars


« Fyrri síða | Næsta síða »

Græna netið

Græna netið

- félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
Til að ganga í Græna netið og/eða skrá sig á póstlista sendið póst á
graenanetid@gmail.com
Vinsamlegast smellið á fyrirsögn til að fá upplýsingar um félagið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband