Leita í fréttum mbl.is

Farið um Hellisheiði, Hverahlíð og Ölkelduháls

Græna netið stendur fyrir skoðunarferð um Hellisheiði, Hverahlíð og Ölkelduháls sunnudaginn 8. júní 2008. Lagt verður af stað frá BSÍ kl. 11 undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Jakobs Gunnarssonar umhverfisfræðings.

Ferðaáætlunin er á þennan veg:

  • Lagt af stað frá BSÍ kl. 11. 
  • Á leiðinni austur verður farið yfir hversu mörg jarðhitaverkefni hafi fengið e.k. málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun og hve oft tilkynningaskyld verkefni hafi verið ákvörðuð háð mati og hversu oft Skipulagsstofnun hafi lagst gegn verkefnum að hluta eða í heild af þeim sem hafa farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum.
  • Fyrsti áfangastaður er við Hellisheiðarvirkjun. Ekki stendur til að fara inn í virkjunina en stefnt að því að ganga upp í hlíðar fyrir ofan virkjunina og glöggva okkur á umfangi þess svæðis sem búið er að virkja. 
  • Þá verður farið að Hverahlíð. Á því svæði má sjá hvernig jarðhitasvæði lítur út þegar rannsóknarboranir eru hafnar en virkjun hefur ekki verið reist. Hafa ber í huga að Orkuveita Reykjavíkur boðar nýja kynslóð jarðhitavirkjana á þessu svæði og hefur lýst því yfir að sjónræn áhrif mannvirkja verði í algjöru lágmarki. 
  •  Loks verður farið á Ölkelduháls. Skoðum hverasvæðin sem eru skammt frá bílaplaninu og röltum niður í Reykjadal og upp aftur. Fræðumst um jarðskjálfta, jarðhita og tignarlegt landslag. 
  • Komið til Reykjavíkur milli kl. 4 og 5. 

    Athygli er vakin á því að við Hverahlíð og Ölkelduháls má sjá áhrif jarðskjálftanna frá í síðustu viku, og við skoðum svæðin meðal annars með það fyrir augum að greina sýnileg ummerki jarðskjálftanna. Okkur ber að sýna sérstaka aðgát á hverasvæðunum við Ölkelduháls eftir skjálftana.

    Leiðsögumennirnir Sigmundur Einarsson og Jakob Gunnarsson þekkja svæðið vel. Sigmundur starfar á Náttúrufræðistofnun Íslands og fæst þar m.a. við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Hann skrifaði fyrir nokkrum árum lærða grein um aldur hraunanna á Hellisheiði. Jakob er sá sérfræðingur á Skipulagsstofnun sem komið hefur að flestum jarðhitaverkefnum á Hellisheiði.

Kostnaður fyrir hvern fullorðinn er 1500 krónur.

Þátttaka tilkynnist hið allra fyrsta á netfangið sas@vortex.is eða dofri.hermannsson@reykjavik.is.

 

Stjórnin


Ingibjörg Sólrún um umhverfismálin

Formaður Samfylkingarinnar ræðir um umhverfisstefnuna á aðalfundi Græna netsins á Sólon á laugardaginn 24. maí

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar ræðir um umhverfisstefnu flokks og lands á fundi Græna netsins á Sólon á laugardaginn. Fundurinn hefst kl. 11.30, eftir aðalfund samtakanna sem hefst kl. 11. Þau Mörður Árnason, formaður Græna netsins, Lára Ómarsdóttir blaðamaður og Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, ræða fyrst stuttlega um stöðu umhverfismála og stefnu Samfylkingarinnar en síðan hefur Ingibjörg Sólrún orðið og svarar fyrirspurnum fundarmanna.

Allir áhugamenn um umhverfismál eru velkomnir á fundinn. – Græna netið var stofnað í október í fyrra, „félag jafnaðarmanna um náttúruna, umhverfið og framtíðina,“ sjálfstæður félagsskapur í tengslum við Samfylkinguna, og hefur fyrsta starfsár sitt haldið fundi um umhverfismál, farið í vettvangsferðir á svæði sem um er deilt, gefið álit á einstökum framkvæmdum og samþykkt ályktanir um það sem efst er á baugi í umhverfisstjórnmálum.


Aðalfundur Græna netsins 24. maí

Aðalfundur Græna netsins verður haldinn laugardaginn 24. maí á kaffistofunni Glætunni, Aðalstræti 9, kjallara, og hefst kl. 11 árdegis.

Auk aðalfundarstarfa verða pallborðsumræður með þátttöku fundarmanna um stöðu umhverfismála, umhverfisstefnu Samfylkingarinnar og útlitið framundan.

Allir áhugamenn velkomnir.

 --------------

Vettvangsferð um Hellisheiði

Græna netið ætlar í vettvangsferð um virkjana- og útivistarsvæði á Hellisheiði og nágrenni laugardaginn 7. júní. Ferðin hefst um kl. 10 á Umferðarmiðstöðinni og verður þátttökugjaldi stillt í hóf. Reiknað með nokkurri göngu og útivist eftir veðri og aðstæðum, áætluð koma aftur í bæinn 15-16. Tilkynnið þátttöku í sas@vortex.is.
-- nánari ferðalýsing síðar.


Græna netið skundar á Þingvöll

- Þingvellir, Lyngdalsheiði og Gjábakki
 
Sunnudaginn 4. maí ætlar Græna netið að skunda á Þingvöll m.a. í þeim tilgangi að kynna sér deilur um legu Gjábakkavegar sem liggur á milli Þingvalla og Laugarvatns.  Einar Sæmundsson, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, fer með okkur um svæðið og  ræðir um stöðu náttúruverndar á Íslandi.
Lagt verður af stað kl.11 frá BSÍ og er ráðgert að koma til baka um kl. 17. Ferðalangar þurfa að hafa með sér nesti og drykkjarföng þar sem við getum ekki treyst því að þjónustumiðstöðin verði opin.

Allir eru velkomnir en tilkynna þarf þátttöku með tölvupósti í netfangið sas@vortex.is eða sigrun.pals@simnet.is.  Einnig er hægt að tilkynna sig með sms eða símtali í 861 2135.  Góðfúslega látið vita af fjölda samferðamanna þegar tilkynnt er um þátttöku.

Fargjald er krónur 1.500 og frítt fyrir börn yngri en 12 ára.

Á vef Veðurstofunnar fyrir sunnudaginn segir:
Hiti: 12°C
Vindur: austan 5 m/s (andvari eða gola)
En býst við einhverri úrkomu um allt land.

Þátttakendur þurfa því að búa sig með hliðsjón af því að það geti fallið skúrir.  Við gerum ráð fyrir útivist sem á að vera fær öllu fullfrísku fólki.
Hægt er að kynna sér tillögur að legu Gjábakkavegar á vef Landverndar en þar fer fram netkosning um tillögurnar.


Össur um orku og umhverfisvernd

Iðnaðarráðherra gestur á spjallfundi Græna netsins á laugardag

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er gestur Græna netsins á fundi laugardaginn 26. apríl um frumvarpið um framtíð orkumála, um iðnaðaruppbyggingu, stóriðjuáform og náttúruvernd.  Fundurinn verður haldinn á Sólon í Bankastræti, Reykjavík, og hefst klukkan 11. Eftir stutt upphafsávarp Össuarar verða umræður og fyrirspurnir.

Þetta er fyrsti opni fundurinn sem iðnaðarráðherra heldur í höfuðborginni í vetur og má vænta fjörugra og fróðlegra umræðna á fundi Græna netsins með Össuri Skarphéðinssyni. Fundarstjóri verður Katrín Theodórsdóttir lögmaður. 

Félagar í Græna netinu eindregið hvattir til að mæta á þennan fund með einum mikilvægasta stjórnmálamanni flokks og þjóðar á umhverfissviði!

 

Stjórnin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Græna netið

Græna netið

- félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
Til að ganga í Græna netið og/eða skrá sig á póstlista sendið póst á
graenanetid@gmail.com
Vinsamlegast smellið á fyrirsögn til að fá upplýsingar um félagið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband