Leita í fréttum mbl.is

Umhverfið og kreppan – fórnir eða lausnir?

Umhverfisráðherra einn málshefjenda á opnum spjallfundi um kreppuna og umhverfismálin á laugardaginn 
 
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi eru málshefjendur á spjallfundi Græna netsins um umhverfismál á krepputímum á laugardaginn kemur, 11. október. Fundurinn er haldinn á Kaffi Hljómalind á Laugavegi 23 í Reykjavík, og hefst kl. 11 árdegis. Í yfirlýsingum ráðamanna og álitsgjafa þessa kreppudaga hefur nokkuð borið á því að nú verði að hætta þessari umhverfisvitleysu. Umhverfismál eru lúxus sem við getum ekki leyft okkur, sagði forystumaður atvinnurekenda, og kunnur viðskiptablaðamaður lagði til að lög um umhverfismat yrðu afnumin til að auðvelda framkvæmdir og nýjan vöxt.  

Umhverfismál í kreppu? – er umræðuefnið á spjallfundi Græna netsins. Verður tillit til umhverfisins að víkja meðan við vinnum okkur út úr vandanum, með rússneskum olíuhreinsistöðvum og allskyns álverum? Eða á kannski þvert á móti að byrja upp á nýtt með öðruvísi hagkerfi og önnur lífsgildi? Málshefjendur eru Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi en fundarstjóri er Mörður Árnason íslenskufræðingur og varaþingmaður.

Allir velkomnir einsog venjulega – mætið á fróðlegan fund um málefni dagsins og takið með ykkur gesti.  Stjórnin


--
Græna netið, félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
graenanetid@gmail.com


Græna netið ályktar um landsskipulag

Græna netið fundaði um landsskipulag á Kaffi Hljómalind í morgun. Lýstu fundarmenn áhyggjum sínum yfir því að lögin skuli ekki hafa verið tekin til afgreiðslu á haustþingi og var samþykkt ályktun þess efnis í lok fundar. Tillaga að landsskipulagi er hluti af frumvarpi umhverfisráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur að nýjum skipulagslögum sem kynnt var á síðasta þingi og er hún þriðji ráðherrann sem kemur að frumvarpinu.

Ályktun fundar Græna netsins:
 „Landsskipulag er nauðsynlegt stjórntæki fyrir almannavaldið í skipulags- og umhverfismálum. Það getur hindrað handahófsákvarðanir og deilur sem nú koma niður á náttúruverðmætum og tefja framkvæmdir. Opin og gagnsæ vinnubrögð við mótun landsskipulagsáætlana geta leitt til aukinnar sáttar í þessum efnum, agað stefnumótun og áætlanagerð og bætt lýðræði í samfélagi okkar. Slík skipan er við lýði í öllum hinu norrænu ríkjunum og víðast annarstaðar í grannlöndunum.
 
Græna netið lýsir vonbrigðum með að landsskipulag verði ekki lögbundið á þinginu sem nú er að ljúka. Þar með hefur alþingi látið ónýtt tækifæri til að stíga mikilsvert framfaraskref sem hefði breytt stöðu umhverfismála og orðið sveitarfélögunum mikill styrkur í skipulagsmálum, ekki síst á landsbyggðinni.
 
Græna netið væntir þess að landsskipulagsákvæðin verði lögð fyrir alþingi á ný í vetur og hvetur alþingismenn og sveitarstjórnarmenn til að ná áttum í þessu mikilvæga máli.“


Landsskipulagið – hverju breytir það? – verður það samþykkt?

graena netid logoHelgi Hjörvar og Sigurður Ásbjörnsson tala um landsskipulag á spjallfundi Græna netsins nk. laugardag.

Helgi Hjörvar formaður umhverfisnefndar alþingis og Sigurður Ásbjörnsson starfsmaður Skipulagsstofnunar verða málshefjendur á spjallfundi Græna netsins um landsskipulag á laugardaginn 6. september. Fundurinn er haldinn á Kaffi Hljómalind á Laugavegi 23 í Reykjavík, kl. 11 árdegis. 

Ákvæði um landsskipulag í skipulagslagafrumvarpi umhverfisráðherra hafa valdið ágreiningi meðal sveitarstjórnarmanna og þingmanna, og hefur komið fram veruleg andstaða við þau innan Sjálfstæðisflokksins. Náttúruverndarmenn hafa hinsvegar lagt mikla áherslu á landsskipulag sem leið til að rjúfa alveldi sveitarfélaga í skipulagsmálum og koma að almannahagsmunum. Þegar þessi auglýsing er skrifuð er enn ekki ljóst hvort málið verður afgreitt á nýhöfnu septemberþingi en það skýrist væntanlega fyrir fundinn á laugardag þar sem Helgi segir frá gangi mála á þinginu en Sigurður segir okkur frá helstu þáttum hugmynda um landsskipulag og hvernig það virkar í grannlöndum.

Ef vel liggur á stjórninni er hugsanlegt að hún leggi fyrir fundinn tillögu til ályktunar um þessi mál.Allir velkomnir á fundinn á Hljómalind. 

Stjórnin  


Umhverfissamtök fjölmenna í Teigsskóg í Þorskafirði

Teigsskógur í ÞorskafirðiFuglaverndarfélag Íslands, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Græna netið og heimamenn í Reykhólasveit efna til gönguferðar um Teigsskóg í Reykhólasveit í Barðastrandasýslu laugardaginn 5. júlí n.k. Lagt verður upp frá Gröf klukkan 13.00 þar sem Gunnlaugur Pétursson býður göngufólk velkomið og segir frá áformum Vegagerðarinnar um veglagningu um landnámsskóginn og umhverfisáhrifum hennar. Á áningarstöðum sýna Einar Þorleifsson frá Fuglavernd og Gunnlaugur Pétursson ferðalöngum fugla, blóm og jurtir m.a. ferlaufunginn og krossjurtina sem fundist hafa í skóginum. Ferðin endar í hlaðvarpanum á Hallsteinsnesi þar sem sagt verður frá lifnaðarháttum arnarins sem og einu gjöfulasta arnarhreiðri á landinu sem er að finna í Djúpafirði. Gönguferð um skóginn tekur um þrjár klukkustundir.

Áhugasamir eru beðnir að skrá sig í ferðina í síðasta lagi á miðvikudag 2. júlí kl. 16. Skráning í ferðina er hjá Sigrúnu í síma 866 9376 eða sigrunpals@landvernd.is
 

Þeir sem vilja prjóna við ferðina og gista er bent á að búið er að taka frá fjögur herbergi í Djúpadal í næsta nágrenni Teigsskógar en þar er gisting með eldunaraðstöðu í gömlum bæ. Einnig heitur pottur og sundlaug. Þeir sem áhuga hafa á að skrá sig í þessi herbergi (3x2, 1x1) eru vinsamlegast beðnir að hringja þangað sem allra fyrst því - fyrstur kemur, fyrstur fær. Mikið er af gististöðum í Reykhólasveit og bendum við áhugasömum á eftirfarandi möguleika:

Djúpidalur
Gisting með eldunaraðstöðu, heitum potti og sundlaug kr. 2 500 í svefnpokaplássi og kr. 3 000 í uppbúnu rúmi.
Sími 434-7853
Hótel Bjarkalundur
www.bjarkalundur.is 
Sími 434-7762
Gistiheimilið Álftaland
www.alftaland.is´
Sími 434-7878
Miðjanes, ferðaþjónusta bænda
Sími 434-7787, 893-7787

Upplýsingar um svæðið með kortum: www.westfjords.is/index.php/services/listings/C11
Sjá einnig: www.gisting.is/?gid=274

Við hvetjum fólk til að sameinast um bifreiðarnar.

Tildrög ferðarinnar:
Um nokkurt skeið hafa verið í gangi málaferli sem fara fyrir Hæstarétt á hausti komandi. Málaferlin eru rekin af landeigendum, Fuglavernd og Náttúruverndarsamtökum Íslands til að hrindra ákvörðun um vegagerð yfir Djúpafjörð, Gufufjörð og um Teigsskóg.

Fuglavernd og Landvernd hafa lagt til vegagerð sem fæli í sér jarðgöng undir Hjallaháls og Gufudalsháls. Sú vegagerð kæmi að mestu í veg fyrir náttúruspjöll, Teigsskógur yrði ósnortinn og Djúpifjörður og Gufufjörður, sem eru í Breiðafjarðarfriðlandi, héldust óbreyttir. Jarðgangaleiðin myndi stytta leiðina um sem nemur 7 km og auka umferðaröryggi verulega - enda aldrei snjór eða hálka í jarðgöngum.

Teigsskógur+veifa21000 hvítar veifur á björkum í vegstæði Vegagerðarinnar í Teigsskógi
"Þúsund hvítar veifur á björkum í Teigsskógi eru ákall um að stjórnvöld láti fornskóginn þar í friði. Fyrirhuguð er hraðbraut í gegnum skóginn og þvera á firði á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegagerðin er alvarlegt umhverfisslys þar sem þessi mjög svo umdeildi vegur spillir lítt snortinni landslagsheild, þar með töldum hinum forna Teigsskógi, og þverun fjarða mun hafa áhrif á leirur og fæðustöðvar hundruða þúsunda farfugla sem hafa leirurnar sem áningarstað auk varpfuglanna á svæðinu. Öll þessi röskun er óþörf þar sem gamla vegastæðið og göng gegnum hálsa er ódýrari, öruggari og jafnfljótleg leið - og spillir engu. Jónína Bjartmarz fyrrverandi umhverfisráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og heimilaði þessa vafasömu framkvæmd.

Íslendingar eiga að fara vel með landið sitt og varðveita forna skóga og leirur, fugla og fagurt landslag. Veifurnar í Teigsskógi eru ákall um betri umgengni við landið." 

Náttúra - Tónleikar Bjarkar og Sigur Rósar

- til stuðnings náttúruvernd á Íslandi

natturalogo webBjörk Guðmundsdóttir og Sigur Rós ásamt Ólöfu Arnalds halda tónleika til stuðnings náttúruvernd á Íslandi í brekkunni fyrir ofan þvottalaugarnar í Laugardal í Reykjavík kl. 17 28.júní nk. 

Aðgangur að tónleikunum verður ókeypis og gefa þeir aðilar sem að tónleikunum standa alla sína vinnu. Til þess að allt heppnist sem best óska tónleikahaldarar eftir sjálfboðaliðum til starfa á tónleikunum og eru áhugasamir beðnir að hafa samband við Margréti Vilhjálmsdóttur í síma 8483891 eða Diljá í netfangi: diljaamunda@gmail.com
Eins er óskað eftir góðum og nytsömum tillögum í tengslum við uppákomuna.

Fjölskyldugarðurinn og Sundlaugin í Laugardal verða opin fyrir tónleikagesti til 24.00 þetta kvöld.

Tónleikahaldarar treysta því að umhverfisvænir tónleikagestir sýni vistvernd í verki og gangi vel um svæðið. Annars sér Reykjavíkurborg um tiltekt á svæðinu eftir tónleikana og Gámafélagið ehf. um endurvinnslu á því rusli sem til fellur endurgjaldslaust.

Aðstandendur tónleikanna bjóða öllum Náttúruverndarsamtökum að kynna sína starfsemi í stórum tjöldum á tónleikasvæðinu.
Búið er að kolefnisjafna tónleikana og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk. Björkunum var plantað nálægt Þjórsá í landi Skaftholts og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur.   

Nánari upplýsingar á: www.nattura.info
Eins: www.bjork.com  og www.sigurros.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Græna netið

Græna netið

- félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
Til að ganga í Græna netið og/eða skrá sig á póstlista sendið póst á
graenanetid@gmail.com
Vinsamlegast smellið á fyrirsögn til að fá upplýsingar um félagið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband