Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Umhverfismál

Evrópumál eitt helsta verkefni á starfsárinu

graena netid logoEvrópusambandsaðild styrkir náttúruvernd á Íslandi, sagði Jón Gunnar Ottósson forstjori Náttúrufræðistofnunar í fróðlegu erindi á fundi Græna netsins um Evrópusambandið af umhverfissjónarhóli, sem haldinn var að loknum aðalfundi félagsins á Glætunni laugardaginn 6. júní. Á aðalfundinum sagði Mörður Árnason, ný-endurkjörinn formaður félagsins, að Evrópumálin yrðu ljóslega eitt helsta verkefni félagsins á nýju starfsári.

Jón Gunnar rakti sameiginlegt starf ESB-ríkjanna að náttúruvernd, lýsti skipulagi samstarfsins og eftirliti með aðgerðum í aðildarríkjunum. Hann sagði að Íslendingar gætu haft verulegan hag af þessari samvinnu, og væru tilbúnir til hennar því að undanförnu hefði skipulegt náttúruverndarstarf farið fram undir sömu merkjum og í sambandinu. EES-aðildin tæki hinsvegar ekki til náttúruverndar. Mikið verk yrði að vinna á þessu sviði, einkum við greiningu og flokkun vistgerða og búsvæða, áður en til aðildar gæti komið, með talsverðum kostnaði, og stjórnvöld yrðu að gæta þess að slík vinna tefði ekki aðildarferlið ef ákveðið væri að leggja í þennan leiðangur.

Fundarmenn þökkuðu Jóni Gunnari fyrir sitt mál og höfðu margs að spyrja þar á meðal um hvalveiðar, sem væntanlega legðust af við inngöngu, um ásókn framandi tegunda, með hjálp mannsins og án, um selalög og um skógrækt.

Á aðalfundi Græna netsins fyrr um morguninn var kynnt skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 20082009 og samþykktir reikningar félagsins. Stjórnin var endur- og sjálfkjörin, en í henni eru Mörður Árnason, formaður, Dofri Hermannsson, Helga Rakel Guðrúnardóttir, Katrín Theodórsdóttir, Reynir Sigurbjörnsson (vm.), Sigrún Pálsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir (v.m.).

Mörður sagði í lok aðalfundar að Evrópumálin yrðu eitt af helstu verkefnum félagsins á nýju starfsári og boðaði stofnun sérstaks vinnuhóps til að safna upplýsingum um stöðu umhverfis-og náttúruverndarmála í Evrópusambandinu, athuga hver ættu að vera samningsmarkmið Íslendinga á þessum svipum í aðildarviðræðum og leggja á ráðin um kynningu meðal umhverfissinna og almennings. Hann sagði einnig ljóst að fram til áramóta hlytu samtök á umhverfissviði að leggja mikla áherslu á loftslagsmál vegna ráðstefnunnar miklu í Kaupmannahöfn í desember.

Í skýrslu stjórnar kom fram að hún væri nokkuð ánægð með störf félagsins á árinu, sem markaðist allan veturinn af kreppunni og pólitískum tíðindum tengdum henni. Helst játaði stjórnin á sig vanrækslusyndir í tengslum við vettvangsferðir sem úr dró miðað við fyrra starfsár, og taldi að næsta stjórn hlyti að bæta úr.

Ný stjórn kemur saman í næstu viku, skiptir með, sér verkum og ræður ráðum sínum um starfið á næstunni. Sjá símanúmer og netföng stjórnarmanna hér á síðunni. 

 
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á náttúruvernd?

Jón  Gunnar Ottósson fjallar um Evrópusambandið og náttúruvernd á opnum fundi Græna netsins laugardaginn 6. júní á Glætunni. Aðalfundur fyrr um morguninn.

Að loknum aðalfundi Græna netsins laugardaginn 6. júní verður Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, framsögumaður um Evrópusambandið og náttúrvernd. Sjónum verður beint að því hvaða breytingum ESB-aðild ylli í náttúruverndarmálum, og öðrum umhverfismálum. Í EES-samningnum voru ESB-reglur um náttúruvernd undanskildar, og telja margir að Íslendingar væru komnir mun lengra í þeim efnum ef þeim hefði verið fylgt hérlendis. Fundurinn um ESB og náttúruvernd hefst á Glætunni, Laugavegi 19, uppúr kl. 11 á laugardagsmorgun.

Aðalfundur Græna netsins verður haldinn á sama stað og hefst kl. 10.30. Á dagskrá hans eru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar, reikningar, stjórnarkjör, lagabreytingar o.s.frv. skv. 5. grein félagslaga. Félagar eru hvattir til að mæta stundvíslega – en reynt verður að hafa fundarstörf afar markviss vegna fundarins í kjölfarið.

 


Umhverfi og auðlindir - stjórnarsáttmáli

- Stefna nýrrar ríkisstjórnar í umhverfismálum
Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti. Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar. Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum byggir á meginreglum umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótarreglunni, eins og þær eru skilgreindar í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnhags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna.
 
Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Náttúruverndarlög verði endurskoðuð, verndarákvæði treyst og almannaréttur tryggður. Sérstaklega skal hugað að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó.
 
Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta. Ný náttúruverndaráætlun til 2013 verði afgreidd á vorþingi.
 
Rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land.
 
Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu.
 
Vatnatilskipun ESB verði innleidd og aðlöguð íslenskum aðstæðum með því að lokið verði við frumarp til nýrra vatnalaga, sem tryggi verndun og sjálfbæra nýtingu ferskvatns og skilgreini aðgang að vatni sem grundvallarmannréttindi.
 
Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda um 50-75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010. Í áætluninni verði lögð sérstök áhersla á samdrátt í losun frá samgöngum og fiskiskipum.
 
Verðleggja losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og gera viðskipti með þær möguleg.
 
Ný skipulags- og mannvirkjalög verði lögð fram á Alþingi að höfðu samráði við sveitarfélög. Þar verði kveðið á um landsskipulagsstefnu, sem mótuð verður í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, þar sem litið verði til landsins sem einnar heildar.
 
Áhersla verði lögð á að marka stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika og vernd búsvæða tegunda, með það að markmiði að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfa á landi, í sjó og vötnum.
 
Staðfesta Landslagssáttmála Evrópu með það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni.
 
Endurskoða lög og reglur um sorphirðu og endurvinnslu með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi, svo markmið um minni urðun og meiri endurvinnslu náist.
 
Unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.
 
Innleiðingu Árósasamningsins í íslenskan rétt verði hraðað og nauðsynlegar lagabreytingar kynntar á haustþingi 2009.
 
Efla fræðslu til almennings og fyrirtækja um vistvæn innkaup, umhverfismerkta vöru og gildi sjálfbærrar neyslu, með það að markmiði að nýsamþykkt vistvæn innkaupastefna hins opinbera nái tryggri fótfestu í samfélaginu öllu.
 
Tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.
 
Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkgjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.
 
Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlega loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.
 
Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.
 
Lögð er rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem allra fyrst og hún verði lögð fyrir Alþingi á vetri komanda og fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Engar frekari ákvarðandir tengdar virkjun Neðri-hluta Þjórsár verði teknar þar til rammaáætlun liggur fyrir.
 
Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja. Stefnt verði að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum.


Hagkerfi framtíðarinnar

- Sóknaráætlun um fjölda nýrra starfa í grænu hagkerfi

Íslendingar gætu verið meðal þeirra þjóða sem endurreisa efnahagslíf sitt á grunni græna hagkerfisins. Það gerir kröfu um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og atvinnu- og framleiðsluhætti sem virða jafnrétti kynslóðanna til sömu lífsgæða og við njótum. Nýr forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur lýst því yfir að kapphlaupið um að þróa bestu lausnirnar sé hafið og hann vill að Bandaríkjamenn verði fyrstir til að þróa grænt hagkerfi. Nú er því annað hvort að hrökkva eða stökkva fyrir Íslendinga. Við eigum tvo valkosti í stöðunni: Að nýta auðlindir okkar og þekkingu á sjálfbæran hátt til að skapa þjóðinni atvinnu eða sitja eftir í skugganum og láta öðrum eftir störfin sem skapast við að þróa nýtt og lífvænlegra samfélag.

Græna hagkerfið er engin klisja eða draumsýn náttúruverndarfólks. Það er eina raunhæfa lausnin til að endurreisa efnahagslíf heimsins á grunni siðferðilegrar ábyrgðar og réttlætis gagnvart komandi kynslóðum. Barack Obama lagði fram í febrúar endurreisnaráætlun þar sem lagður er grundvöllur að nýju grænu hagkerfi Bandaríkjanna með 5 milljón nýjum störfum á næstu árum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lagt fram áætlanir um innleiðingu grænna lausna til að endurreisa laskað efnahagslíf aðildarlandanna. Íslendingar hafa allar forsendur og einstakt tækifæri til að taka upp grænt hagkerfi

Í græna hagkerfinu er hugvit og mannauður virkjaður til nýsköpunar og gamalgrónar atvinnugreinar eru endurskapaðar í þeim tilgangi að leggja nýjan grunn að þróttmiklu atvinnulífi. Með markvissri eflingu atvinnugreina undir merkjum græna hagkerfisins má fjölga störfum á Íslandi verulega næstu árin :

Græn orka og vistvæn matvælaframleiðsla gætu orðið vörumerki Íslands á alþjóðavettvangi og merkisberi græna hagkerfisins. Til þess að svo geti orðið skiptir miklu að Íslendingar hafi sjálfbæra orkustefnu að leiðarljósi. Þeir hljóta að forðast ágenga orkunýtingu á jarðhitasvæðum og koma í veg fyrir að vatnsorkuvirkjanir skaði landslag og náttúru. Orkuna þarf að nýta í starfsemi sem sómir sér vel í grænu hagkerfi. Á næstu árum skapast mörg störf í orkurannsóknum ekki síst  á sviði  jarðvarma og djúpborana. Stórbæta þarf orkunýtingu við raforkuvinnslu jarðhitavirkjana. Miklir möguleikar liggja einnig í þróun raforku í samgöngum. Heimsbyggðin kallar nú á rafvæddan bílaflota og almennigssamgöngur. Möguleikar Íslendinga til að taka þátt í þeirri þróun hljóta að vera miklir. Grænar samgöngur skapa ný störf.

Grænn landbúnaður skapar ný störf með lækkun raforku til garðyrkju og að gera bændum kleift að þróa og selja afurðir beint frá búi án takmarkandi reglugerða. Markaðssókn landbúnaðarins undir merkjum vistvænna afurða gæti aukið útflutningsverðmæti. Grænn sjávarútvegur skapar einnig ný störf með eflingu fullvinnslu og nýsköpunar í sjávarútvegi, sérstakri markaðssókn undir merkjum vistvænna afurða og sérstakri fiskveiðilögsögu dagróðrabáta..

Grænn iðnaður skapar fjölda nýrra starfa. Efla þarf t.d. sprotafyrirtæki í tölvu, matvæla, lyfja og lífefnaiðnaði. Rannsóknir og þróun vistvænna orkugjafa eins og t.a.m vetnis, metanóls og lífefna  þarf einnig að efla.  Kísilflöguverksmiðjur, stórar gagnamiðstöðvar og vatnsfyrirtæki nýta orkuauðlindir okkar á sjálfbæran hátt og skapa fjölda starfa. Innleiðing græns hagkerfis og aðildarviðræður við Evrópusambandið myndi skapa þessum iðnaði traustan rekstrargrundvöll og möguleika til aukinnar sóknar á erlendum mörkuðum.

Í ferðaþjónustu og grænni ferðamennsku má skapa fjölmörg ný störf. Þjóðgarða landsins þarf að efla og bæta aðstöðu ferðamanna s.s. með lagningu göngustíga, fræðslu og ýmiskonar þjónustu. Efla þarf menningartengda ferðamennsku og Íslandi trúverðugleika á alþjóðavettvangi.
Heilsutengd ferðaþjónusta skapar ný störf á næstu árum. Vinna þarf að alþjóðlegu vottunarkerfi heilsutengdrar ferðaþjónustu og skapa samstarfsgrundvöll á milli heilbrigðiskerfisins og ferðaþjónustunnar. Menningar- og afþreyingarstarfsemi skapar ný störf með öflugum stuðningi við innlenda listsköpun og listastofnanir. Einnig þyrfti að samhæfa markaðssetningu íslenskrar menningar á erlendum vettvangi og leggjast strax í öflugt átak í þeim efnum. Uppbygging háskóla og sérskólanáms um land allt mun skapa ný störf á næstu árum.

Innleiðing græna hagkerfisins á Íslandi mun tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda til lands og sjávar, þar sem atvinnuuppbygging er í sátt við umhverfi og náttúru og þar sem komandi kynslóðum eru tryggð sömu eða betri gæði en okkur sem lifum í dag. Í samvinnu við vinaþjóðir okkar í Evrópu og Ameríku getur Ísland lagt sitt á vogarskálarnar til að skapa góða framtíð fyrir börnin okkar. Græna hagkerfið er hagkerfi framtíðarinnar.

Við undirrituð erum í Samfylkingunni og störfum með henni í þeirri trú að við getum með málefnalegu starfi og samræðum styrkt hana til að gera græna atvinnusköpun að einni meginstoðinni í stefnuskrá flokksins. Á landsfundi fundum við að í röðum flokksfólks var mikill stuðningur við þá stefnu. Stuðningur þingflokks Samfylkingarinnar við staðfestingu stóriðjusamnings við Helguvík er döpur arfleið fyrri ríkisstjórnar, tryggð við gefin loforð í von um ný störf, sem við þó óttumst að reynist tálsýn ein og beini takmörkuðum kröftum inn á blindgötu. Samfylkingin heitir í stefnu sinni áherslu á græna atvinnusköpun, þar sem græn orka er notuð í vistvæna framleiðslu. Það er leiðin.

Fyrir hönd Nýgræðinga
Lárus Vilhjálmsson fjármálastjóri
Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarkona og ferðaskipuleggjandi
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur


Ný ríkisstjórn – Hvað merkir stjórnarsáttmálinn?

Þórunn Sveinbjarnardóttir verður málshefjandi á spjallfundi Græna netsins um nýja ríkisstjórn og afstöðu hennar í umhverfis- og atvinnumálum. Fróðlegar samræður á Glætunni á sunnudag frá kl. 11.

Græna netið heldur spjallfund um nýju ríkisstjórnina, umhverfis- og atvinnumál á sunnudaginn, 17. maí, á  kaffihúsinu Glætunni við Laugaveg (gegnt Máli og menningu). Við skoðum stjórnarsáttmálann og það sem í honum er um umhverfismál og atvinnustefnu, og verður málshefjandi Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður og fyrrverandi umhverfisráðherra.

Í nýju stjórninni eru tveir vinstriflokkar sem báðir hafa einarða stefnu um umhverfismálefni og náttúruvernd. Hvernig endurspeglast það í sáttmála ríkisstjórnarinnar og hverjar eru líkur á að það sem þar stendur verði að veruleika? Og hvað um það sem ekki stendur í sáttmálanum – til dæmis um virkjunarframkvæmdir og stóriðjuver?

Spjallfundur Græna netsins hefst kl. 11 árdegis og stendur í rúman klukkutíma.

Allir velkomnir á fundinn í Glætunni – takið með ykkur gesti.

Stjórnin


Grænir frambjóðendur í Reykjavík og Kraganum

graenaNet LeVertes

Græna netið hélt fund með frambjóðendum í Reykjavík og Kraganum um síðustu helgi og lagði fyrir þá spurningar um umhverfismál. Hér að ofan má sjá niðurstöðu fundarins.


Fundur um umhverfismál með frambjóðendum Samfylkingarinnar

graena netid logoGræna netið býður frambjóðendum Samfylkingarinnar í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi til fundar í Hvammi á Grand Hotel laugardaginn 7. mars kl. 11.

Tilefni fundarins er að gefa frambjóðendum færi á að kynna áherslur sínar í umhverfismálum og kjósendum kost á að spyrja. 

Nú fyrir kosningar hefur fólk úr Framtíðarlandinu og Íslandshreyfingin gengið til liðs við Samfylkinguna og finnst Græna netinu mikilvægt að taka þessu fólki fagnandi og bjóða því til fundar til að kynnast okkar frambjóðendum. 

Dagskrá fundar hefst á litlum leik sem er þannig að fyrir fundinn fá allir frambjóðendur sendan lista með 10 já/nei spurningum. Á fundinum verður svörum frambjóðenda varpað upp á tjald og kemur þá í ljós hvort viðkomandi frambjóðandi er grænn frambjóðandi eða grár. Í kjölfarið fá frambjóðendur síðan tækifæri til að skýra þau sjónarmið sem fram koma í svörunum og svara fyrirspurnum gesta.

Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar mun síðan ávarpa fundinn.
Við búumst við snörpum og fjörugum umræðum enda verður fundarstjórn í höndum Hjálmars Sveinssonar, útvarpsmanns.

Nánari upplýsinga veita Sigrún Pálsdóttir í síma 866 9376 og Katrín Theódórsdóttir í síma 692 0310. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir til graenanetid@gmail.com

Dagskrá fundar um umhverfismál með frambjóðendum

11.00 Katrín Theódórsdóttir ritari í stjórn Græna netsins setur fundinn
11.05 Farið yfir svör frambjóðenda við 10 já/nei spurningum um afstöðu til umhverfismála
11.20 Frambjóðendur skýra sjónarmið sín og svara spurningum gesta í sal
11.50 Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar ávarpar fundinn
12.00 Fundarslit
 
Fundarstjóri er Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður

--
Græna netið, félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
graenanetid@gmail.com
www.graenanetid.blog.is
Facebook.com


Hvalurinn og Nýja Ísland – veiðar, skoðun, orðspor

Einar K. Guðfinnsson einn málshefjenda á spjallfundi Græna netsins um hvalveiðar, hvalaskoðun og orðspor Íslands á nýjum tímum. Fjörugar umræður á Sólon á laugardag frá kl. 11.

Græna netið heldur spjallfund um hvalastofna og nýtingu þeirra á laugardaginn, 14. febrúar, á  kaffihúsinu Sólon við Bankastræti, efri hæð. Málshefjendur eru Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Mörður Árnason varaþingmaður, formaður Græna netsins, og Rannveig Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar í Reykjavík. Fundarstjóri er Sigrún Pálsdóttir. Fundurinn hefst kl. 11 árdegis og stendur í rúman klukkutíma.

Ákvörðun Einars á síðustu dögum sínum í sjávarútvegsráðuneytinu hefur vakið athygli og uppskorið bæði fögnuð og hvassa gagnrýni. Á fundinum skýrir Einar ákvörðun sína en Mörður mælir fyrir munn efasemdarmanna um hvalveiðar frá Íslandi viðnúverandi aðstæður. Rannveig Sigurðardóttir segir frá starfsemi og viðgangi Eldingar og annarra hvalaskoðunarfyrirtækja um landið og lýsir því hvaða áhrif ákvörðun Einars kynni að hafa fyrir þennan atvinnuveg. Eftir stuttar framsögur verða fyrirspurnir og umræður.

Allir velkomnir á fund Græna netsins á Sólon – takið með ykkur gesti.

 


« Fyrri síða

Græna netið

Græna netið

- félag jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina
Til að ganga í Græna netið og/eða skrá sig á póstlista sendið póst á
graenanetid@gmail.com
Vinsamlegast smellið á fyrirsögn til að fá upplýsingar um félagið.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 581

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband